Úthlíð hét fyrrum Hlíð hin ytri og var kirkjustaður í Biskupstungum. Fyrstu ábúendur í Úthlíð voru Þorgerður Ketilbjarnardóttir sem fékk jörðina frá föður sínum Ketilbirni gamla en hann var landnámsmaður og settist að á Mosfelli í Grímsnesi. Ásgrímur Úlfsson var maður hennar og Geir Goði var fyrsta barnið sem fæddist í Úthlíð. Geir goði var þekkur á sinni tíð og tók meðal annarra þátt í aðförinni að Gunnari á Hlíðarenda, en um þá frægðarför má lesa í Brennunjálssögu.
En nú liðlega 1000 árum síðar hefur margt breyst.
Ferðaþjónustan Úthlíð var stonfuð árið 1991, eftir að bændurnir í Úthlíð, Ágústa og Björn ákváðu að fara út í búsháttarbreytingar, leggja niður kúabúið og reisa orlofshús til útleigu fyrir ferðamenn. Þetta var í kjölfar nokkurra annarra breytinga sem höfðu orðið í Úthlíð
Úthlíð er ferðaþjónustubær
Bærinn Úthlíð stendur skammt frá Gullfossi og Geysi, í miðjum Gullna hringnum. Þar er rekin umfangsmikil ferðaþjónusta: Réttin er veitinga/skemmtistaður, 9 holu golfvöllur með stórum félagsklúbbi, 12 orlofshús í öllum stærðum og gerðum, fjölskyldutjaldsvæði með rafmagni og öllu tilheyrandi og hestaleiga þar sem boðið er uppá allt frá hálftíma og uppí tveggja daga túra. Einnig er rekið stórt og myndarlegt sauðfjár- og hrossabú í Úthlíð.
Réttin:
Í hjarta Úthlíðar er veitinga- og grillbarinn Réttin. Nafnið Réttin er tilkomið út af því að á sama stað var gömul fjárrétt sem var ýtt í burtu vegna breyttra búshátta. Réttin er opin alla virka daga kl. 16 - 20 alla daga vikunnar allan ársins hring. Þar er matseðill með fjölbreyttum réttum sem hæfa flestum matgæðingum en lambakjötið er í aðalhlutverki. Minni sem stærri hópar geta einnig pantað mat að eigin óskum og nýtt aðstöðuna sem þar er í boði Salurinn tekur um 120 manns í sæti en einnig er þar stórt svið með hljóðkerfi og góðu tjaldi. Yfir sumartímann er opið alla daga, kaldur á krananum og hægt að fá mat á grillinu. Sýnt er frá íþróttaviðburðum á stóru sýningartjaldi. Tónlistaratriði, dansleikir, barnaskemmtanir o.þ.h. eru auglýstar sérstaklega.
Orlofshús:
Í Úthlíð er hægt að fá orlofshús leigð til lengri og/eða skemmri tíma. Í boði eru 10 hús, sem eru af nokkrum stærðum og gerðum:
Hefðundnu orlofshúsin með heitum potti, góðu svefnplássi og öllum nauðsynlegum þægindum. Fyrir framan húsin eru fallegir sólapallar með fallegri útsýn í allar áttir. Einnig eru til stór hús með mörgum baðherbergjum og lítil hús með minni þægindum og svo er það Ástarbungan sjálf sem er með yfirbyggðum potti.
Húsin eru öll heilsárshús, þ.e. hús sem gott er að vera í árið um kring. Hægt er að bóka húsin á www.booking.com
Golfvöllur:
Úthlíðarvöllur er glæsilegur 9 holu golfvöllur sem hannaður var af kylfingnum snjalla og myndlistarmanninum Gísla Sigurðssyni. Í tengslum við Golfvöllinn í Úthlíð er rekinn kraftmikill og skemmtilegur golfklúbbur sem er sá sjöundi stærsti á landinu og eru allir klúbbfélagar meðlimir í Golfsambandi Íslands. Klúbburinn er með öflugt félagsstarf, tekur til hendinni á vorin, heldur 3 opin golfmót yfir sumarið og nokkur lokuð félagsmót. Völlurinn opnar venjulega seinni part maí og er opinn fram á haust eins lengi og veður leyfir. Úthlíðarvöllur hentar bæði vönum og óvönum spilurum og er vinsælt hjá fyrirtækjum og félögum að halda mót þar. Að móti loknu er rétt að bregða sér í Réttina og fá sér næringu fyrir sál og líkama.
Hestaleiga:
Hestaleigan er einn elsti hluti skipulagðrar ferðaþjónustu í Úthlíð. Hafa stuttir útreiðartúrar slegið í gegn meðal yngri kynslóðarinnar í skóginum, en lengri ferðir verið meira fyrir þá þroskuðu. Gestir sem koma í hestaleiguna eru bæði innlendir sem erlendir ferðamenn. Styttri ferðirnar eru um næsta nágrenni Úthlíðar, en þær lengri byggja á gamalli hefð fjármanna sem hafa í gegn um aldirnar riðið til fjalls að hausti til að smala saman fé sínu.
Þá er haldið upp frá Úthlíð að morgni dags og riðið sem leið liggur inn í fjallasalinn í átt að Langjökli. Þar er gist í eina nótt í fjallaskála og lagið tekið af sönnum sveitamanna sið. Síðari daginn er riðið um háleindið og komið við í hinum fögru Brúarárskörðum og þar bíður gott nesti sem ekið er með á móti reiðmönnum. Lokahnikkur ferðarinnar er svo pottferð í Hlíðarlaug og góður matur í Réttinni á eftir.
Kirkja:
Frá landnámstíð hafa trúarbrögð alltaf verið iðkuð í Úthlíð. Geir Goði og hans forferður (áar) dýrkuðu heiðinn sið og höfðu hof í túngarðinum hjá sér. En þegar Íslendingar tóku kristna trú árið 1000 eru heimilidir til fyrir því að Geir goði hafi verið á Þingvöllum og þegar heim var komið, braut hann niður hofið og reisti krikju. Var kirkjan Maríu kirkja að kaþólksum sið. Sóknarkirkja var í Úthlíð til ársins 1935 en þá fauk hún í aftaka veðri. Eftir það var messað í stofunni í Úthlíðarbænum til ársins 1966, en þá var sóknin lögð niður og hún sameinuð Torfastaðasókn og eftir það lagðist messuhald af í Úthlíð um stundar sakir. Björn Sigurðsson bóndi í Úthlíð ákvað að reisa nýja kirkju árið 2006 til minningar um eiginkonu sína Ágústu Margréti Ólafsdóttur sem dó fyrir aldur fram haustið 2004. Nýja kirkjan er hátíðleg og falleg og sést langt að. Kirkjan er bændakirkja og er ekki með sóknarprest. Eftir messu er jafnan komið saman í Réttinni í messukaffi. Hægt er að taka kirkjuna á leigu fyrir brúðkaup, fermingar eða skírnir og þá er tilvalið að hafa veislu í Réttinni að athöfn lokinni. Einnig er kirkjan friðsælt hús og hefur oft verið nýtt til hugleiðslu og jógaiðkunar.
Náttúra:
Náttúrufegurðin í Úthlíð svíkur engan. Vinsælar gönguleiðir eru víða í Úthlíðarlandi, vítt og breitt í gegnum birkifrumskóg og uppá fjöllin. Högnhöfðinn er þar stórfenglegastur. Þegar uppá hann er komið í um 1.018m hæð í blíðviðri sést í 12 sýslur efst frá Höfðanum sjálfum. Ekki má gleyma einu stórbrotnustu gljúfrum á Íslandi sem nefnast Brúarárskörð. Þegar komið er inn í Brúarárskörð tekur við mikið sjónarspil þar sem Brúaráin sést fossa útúr berginu af gífurlegum krafti.
Bjarnarfell og Miðfell eru fögur lítil fell skammt frá bænum sem gaman er að glíma við og frá toppi þeirra er glæsileg útsýn um suðurland.
Lögbýlið Úthlíð:
Úthlíð er stór bújörð sem er 12.000 hektarar að stærð. Landið nær frá mýrunum fyrir neðan bæinn og allt inn í Langjökul. Áður fyrr var sauðfjárbúskapur aðal atvinnuvegurinn, síðar þróaðist búskapurinn yfir í blandaðan búskap, en nú er þar aðallega stunduð ferðaþjónusta með góðum árangri.
Framtíðarsýn ferðaþjónustunnar er að halda áfram að bjóða gesti og gangandi velkomna í sveitasæluna. Úthlíð er einstakur staður, sannkölluð gersemi þar sem erlendir ferðamenn njóta þess að fá að dvelja mitt á meðal íslenskra ferðamanna. Þessi blanda er eftirsóknarverð fyrir alla aðila, erlenda ferðafólkið kann vel að meta að koma inn í íslenska andrúmsloftið og hitta innfædda og hinir íslensku njóta þess að leiðbeina og gleðja gestina. Sóknarfærið er að koma upplýsingum um Ferðaþjónustna í Úthlíð á erlendar bókunarsíður eins og www.booking.com, vera með öfluga vefsíðu og nýta kosti samfélagsmiðlanna.